Wednesday, November 09, 2005

 


Komin heim eftir eftirminnilega daga í Istanbul.

Það fór eins og mig grunaði að lítill tími gæfist til að blogga í ferðinni enda þessi stutti tími nýttur í annað.

Sigldum um Bosporussundið og skoðuðum borgina frá þeirri hlið í sunnlensku haustveðri. Þeir sem hyggja á Istanbul ferðir á þessum árstíma þurfa ekki að íþyngja ferðatöskunum með sumarklæðnaði því hann kemur að litlum notum. Þarna er frekar hráslagalegt enda næða vindarnir yfir Svartahafið og skella á Istanbul sem þar af leiðandi er heldur hráslagalegri um vetur en flestir aðrir hlutar Tyrklands.
En veðrið skipti litlu máli, við vorum ekki komin til að liggja í sólbaði. Tyrkjunum fannst þetta reyndar ægilega sorglegt fyrir okkar hönd því þeim er MJÖG umhugað um að útlendingum líki vel við landið þeirra.
Ef við höldum að við ofnotum spurninguna "How do you like Iceland" þá á að prufa að fara til Tyrklands. Þetta er það fyrsta sem þeir vilja vita svona eftir að þeir hafa náð því hvaðan maður er. Flestir tilkynntu þeir manni að þeir væru sko ekki Arabar þeir væru Tyrkir og þeim fannst ægilega leiðinlegt hvað umtalið um þá væri slæmt. Verð líka að segja að eftir þessa ferð fékk ég nýja sýn á þjóðina. Við höfum auðvitað alist hér upp með fréttum af Halim Al og Sophiu Hansen og svo erfum við enn Tyrkjaránið hér um árið (Alsír búar voru það nú reyndar).
En allir sem við hittum voru einstaklega almennilegir og alla vega í þessum borgarhluta sem við vorum fannst manni maður alveg öruggur. Ég hef lent í miklu meiri leiðindum í Glasgow og Hamborg heldur en manni fundust mögulega geta gerst þarna.
Gríðarleg virðing er borin fyrir eldra fólki og þá sérstaklega mæðrum. Elsta mamman á svæðinu skipar alveg sérstakan sess og sjaldan hefur verið dekrað eins við hana móður mína eins og þarna. Það held ég að hafi nú ekki þótt leiðinlegt!

Meðal þess sem við skoðuðum var Grand Bazaar sem er stórfenglegur en um leið algjörlega yfirþyrmandi. Risastór yfirbyggður Bazaar þar sem leðurvörur, teppi, gull og fatnaður hverskonar var til sölu í hverjum básnum á fætur öðrum. Það var auðvelt að gleyma sér við að skoða dýrðina og prútta um verð. Gengum síðan um þröngar götur Istanbul yfir á Kryddbasarinn sem er ekki síður skemmtilegur en þar er te og krydd og hvers konar matvara í endalausum röðum. Ekki slæmt að kaupa safran, anís stjörnur, rósapipar og fleira eftir vikt á lítinn pening. Mikið úrval var líka af tei hverskonar og ekki má nú gleyma "Türkish delight" sem er þjóðarsælgætið. Alveg ótrúlega vont nammi sem límir tennurnar saman. Vona að eldri borgarar ferðarinnar hafi verið með gómana vel skrúfaða ef þeir villtust til að smakka ! Svava keypti reyndar svona kassa til að færa vinnufélögunum. Hún vinnur líka á rannsóknarstofu þannig að kannski átti bara að efnagreina innihaldið.

Para Palas er eitt elsta og virðulegasta hótel Istanbul borgar sem staðsett er rétt fyrir neðan Richmond þar sem við bjuggum. Á Para Palas hafa búið margir merkir menn og konur og eru innréttingar allar enn í upprunalegum stíl. Með því að tippa svolítið ríflega fengum við þjón til að sýna okkur herbergið sem Agatha Christie bjó í þegar hún skrifaði "Morðið í Austurlanda hraðlestinni". Það hafði reyndar skemmst nóttina áður vegna sprunginnar vatnsleiðslu en allar myndir og munir voru í lagi.
Það var ekki ónýtt að líða um gangana og ímynda sér að Mata Hari, Ernest Hemingway, Atatürk, Tito, Agatha Christie og fleiri góðir kæmu fyrir hornið.

Farastjóri okkar í ferðinni var Friðrik G. Friðriksson og er ekki annað hægt en að hrósa honum fyrir gott skipulag. Hann skipuleggur ferðir útum allan heim og hér er hægt að skoða síðuna hans.

Comments: Post a Comment<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?